Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 422 . mál.


751. Frumvarp til laga



um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



Upphafsákvæði.


1. gr.


    Innheimta skal í staðgreiðslu 10% tekjuskatt til ríkissjóðs af vöxtum og arði eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Hjá lögaðilum, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og hjá einstaklingum vegna fjármagnstekna er myndast í atvinnurekstri þeirra eða sjálfstæðri starfsemi skal réttilega ákvörðuð og innborguð staðgreiðsla á fjármagnstekjur vera bráðabirgðagreiðsla upp í væntanlegan álagðan tekjuskatt eða önnur opinber gjöld sem lögð verða á slíka rekstraraðila.
    Gera skal grein fyrir vaxtatekjum og arði ásamt öðrum fjármagnstekjum, svo og afdreginni staðgreiðslu á skattframtali eða eftir atvikum greinargerðum að tekjuári liðnu. Skattstjóri skal annast álagningu og líta til þess að staðgreiðslu hafi verið skilað.

Skattskyldir aðilar.


2. gr.

    Skyldir til að greiða skatt skv. 1. gr. og sæta innheimtu á staðgreiðslu hans eru allir þeir sem fá vaxtatekjur, sbr. þó 3. mgr., svo og allir aðilar, þar með taldir þeir er greinir í 3. mgr., er njóta arðstekna.
    Greiðsluskylda samkvæmt þessari grein tekur til þeirra lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 2., 3., 5., 6. og 7. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Réttilega ákvörðuð og innborguð staðgreiðsla þessara aðila er fullnaðargreiðsla án þess að fram þurfi að fara frekari ákvörðun eða álagning tekjuskatts á vexti eða arð hjá þeim. Þó skulu þeir aðilar, sem þessi málsgrein tekur til og sjálfir annast um innheimtu vaxta í eigin lánaumsýslu eða fá vaxtatekjur sem ekki er dregin af staðgreiðsla, t.d. afföll eða gengishagnaður, skila greinargerð um þær vaxtatekjur til skattyfirvalda og standa skil á 10% tekjuskatti af slíkum vöxtum að tekjuári loknu. Þeir aðilar, sem þessi málsgrein tekur til og hafa aðrar fjármagnstekjur en vexti og arð, skulu sömuleiðis standa skil á 10% tekjuskatti af slíkum tekjum að tekjuári loknu. Skal ríkisskattstjóri setja nánari reglur um skilagreinar og skil í þessu sambandi.
    Undanþegnir skyldu skv. 1. mgr. eru að því er vexti varðar: Lánasjóður íslenskra námsmanna, Byggðastofnun, Byggingarsjóður ríkisins, Byggingasjóður verkamanna, Framkvæmdasjóður fatlaðra, Framkvæmdasjóður aldraðra, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Lánasjóður sveitarfélaga og Lánasjóður Vestur-Norðurlanda, Seðlabanki Íslands, lánastofnanir sem skattskyldar eru samkvæmt lögum nr. 65/1982, með síðari breytingum, og lífeyrissjóðir, sbr. lög nr. 55/1980.

Skilaskylda.


3. gr.

    Skylda til að draga staðgreiðslu af vaxtatekjum og afföllum og skila í ríkissjóð hvílir á innlendum innlánsstofnunum, verðbréfafyrirtækjum, verðbréfamiðlurum, eignarleigufyrirtækjum og öðrum fjármálastofnunum, lögmönnum, löggiltum endurskoðendum og öðrum fjárvörsluaðilum, tryggingafélögum, svo og sérhverjum öðrum aðilum sem hafa atvinnu af fjárvörslu, milligöngu eða innheimtu í verðbréfaviðskiptum eða annast innheimtu fyrir aðra.
    Skylda til að draga staðgreiðslu af arði og skila í ríkissjóð hvílir á lögaðilum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattstofn.


4. gr.

    Vaxtatekjur til staðgreiðslu samkvæmt lögum þessum teljast vextir og afföll, sbr. 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, svo sem:
    Vextir af innstæðum í innlendum bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum samvinnufélaga, á póstgíróreikningum og orlofsfjárreikningum, svo og vextir af verðbréfum sem hliðstæðar reglur gilda um samkvæmt sérlögum. Til vaxta teljast enn fremur verðbætur á höfuðstól og vexti, verðbætur á inneignir og kröfur sem bera ekki vexti og happdrættisvinningar sem greiddir eru í stað vaxta.
    Vextir af stofnsjóðseign í gagnkvæmum vátrygginga- og ábyrgðarfélögum, kaupfélögum og öðrum samvinnufélögum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Vextir hjá innlendum aðilum af sérhverjum öðrum innstæðum og inneignum en um getur í 1. og 2. tölul., þar með taldir vextir af víxlum, verðbréfum og öllum öðrum kröfum sem bera vexti. Með vöxtum teljast einnig verðbætur og happdrættisvinningar á sama hátt og um getur í 1. tölul.
    Hvers kyns tekjur af hlutdeildarskírteinum.
    Hvers kyns tekjur af lífeyristryggingum, söfnunartryggingum, einstaklinga hjá tryggingafélögum.
    Hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum sem telja má til vaxta af þeim, sbr. þó 2. mgr.
    Ekki skal telja gengishagnað til stofns til staðgreiðslu. Um skattgreiðslu af slíkum tekjum fer eftir lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og skal skatturinn ákvarðaður við álagningu opinberra gjalda næsta ár á eftir tekjuári ásamt álagi á skattfjárhæðina samkvæmt þeim lögum.
    Stofn til staðgreiðslu sem arður samkvæmt lögum þessum teljast arðstekjur, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. fjárhæð þá er félög skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 greiða eða úthluta í arð.

Afdráttur staðgreiðslu.


5. gr.

    Afdráttur staðgreiðslu af vöxtum skal fara fram eins og nánar er kveðið á um í þessari málsgrein:
    Staðgreiðsla af vöxtum skv. 1.–3. tölul.1. mgr. 4. gr. skal fara fram þegar vextir eru greiddir út eða færðir rétthafa til tekna og þar með lausir til ráðstöfunar. Með greiðslu er átt við greiðslu í hvaða formi sem er, hvort heldur greiðslu í peningum, kröfum eða öðru því sem hefur peningalegt verðgildi og látið er af hendi í stað peninga.
    Rekstraraðilar hlutdeildarsjóða skulu gera skil á greiðslu skatts af tekjum sjóðsins. Sjóðurinn telst þá hafa fullnægt skattskyldu, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 4. gr., hjá eigendum hlutdeildarskírteina sjóðsins vegna þess tímabils sem gert er upp fyrir.
    Aðili, sem tekur að sér lífeyristryggingar, söfnunartryggingar, skal gera skil á greiðslu skatts af tekjum af þeim. Telst þá skattskyldu lífeyristryggingahafa, söfnunartryggingahafa, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 4. gr., fullnægt.
    Staðgreiðsla af tekjum skv. 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. skal fara fram þegar þær eru færðar rétthafa til tekna og lausar honum til ráðstöfunar eða þegar þær eru greiddar út.
    Við vexti af verðbréfum, sem ekki eru með árlegri greiðslu, skal, áður en skattur er reiknaður, bætast viðbótarfjárhæð sem miðast við að ársávöxtun eftir skatt yfir reikningstímabilið sé sem næst því sem verið hefði við árlega staðgreiðslu. Seðlabanki Íslands skal reikna út álagið fyrir hvert ár í upphafi næsta árs á eftir tekjuárinu.
    Sé kröfu skuldbreytt þannig að áföllnum vöxtum sé bætt við höfuðstól skal staðgreiðsla dregin af þeim vöxtum sem voru áfallnir þegar skuldbreytingin er gerð.
    Ef einungis er borgaður hluti af áskilinni afborgun kröfu skal við það miðað að vextir séu fyrst greiddir. Þegar verðbréf er selt, eða afhent sem greiðsla, skal skrá á verðbréfið nafn seljanda, kennitölu hans og dagsetningu sölu ásamt söluverði (kaupverði) eða markaðsvirði þegar um kröfu til lengri tíma en 12 mánaða er að ræða.
    Afdráttur staðgreiðslu af afföllum skal fara fram við hverja afborgun af kröfu þeirri sem afföllin reiknast af. Ákvæði þessarar málsgreinar taka þó ekki til affalla þegar krafa er innheimt hjá öðrum en skilaskyldum aðilum, sbr. 3. gr.
    Afdráttur staðgreiðslu af arði skal fara fram þegar hlutafélag greiðir eða úthlutar arði til hluthafa. Með greiðslu er átt við greiðslu í hvaða formi sem er, hvort heldur í peningum, kröfu eða öðru því sem hefur peningalegt verðgildi og látið er af hendi í stað peninga.

Upplýsingar til rétthafa.


6. gr.

    Skilaskyldur aðili skv. 3. gr. skal ávallt geta um staðgreiðslu skatts á kvittun til rétthafa vaxta og arðs skv. 4. gr. Að tekjuári liðnu og eigi síðar en 1. febrúar ár hvert skulu skilaskyldir aðilar, sbr. 1. mgr. 3. gr., láta þeim sem skattur var dreginn af samkvæmt lögum þessum í té heildaryfirlit þar sem fram komi höfuðstóll inneignar eða kröfu í árslok, vextir ársins og afdregin staðgreiðsla á þá vexti. Lögaðilar, sbr. 2. mgr. 3. gr., skulu eigi síðar en 1. febrúar ár hvert gefa út hlutafjármiða þar sem fram komi m.a. staðgreiðsla næstliðins árs.

Greiðslutímabil og gjalddagar.


7. gr.

    Greiðslutímabil skatts samkvæmt lögum þessum skal vera almanaksárið. Gjalddagi er 15. janúar árlega og er eindagi 15 dögum síðar.

Innheimta.


8. gr.

    Skilaskyldur aðili skv. 3. gr. skal ótilkvaddur greiða á gjalddaga skv. 7. gr. skatt samkvæmt lögum þessum.
    Greiðslur skv. 1. mgr. skal inna af hendi til innheimtumanna ríkissjóðs í því umdæmi sem skilaskyldur aðili á lögheimili í.
    Nú hefur staðgreiðsla verið ofreiknuð og er þá skilaskyldum aðila skylt að endurgreiða hina ofreiknuðu fjárhæð ásamt dráttarvöxtum fyrir það tímabil sem skatturinn var í vörslu skilaskylds aðila. Sama skylda hvílir á ríkissjóði að því er varðar þann tíma sem staðgreiðsla er í hans vörslu.

Skilagreinar.


9. gr.

    Með greiðslum skal fylgja skilagrein á þar til gerðu eyðublaði eða í öðru því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Aðilar skv. 3. gr. skulu skila skilagrein enda þótt enginn skattstofn sé fyrir hendi á tekjuárinu. Þeir geta þó sótt um undanþágu frá þessari skyldu til ríkisskattstjóra, enda hafi þeir þá ekki innheimtu á eða milligöngu með peningalegar eignir eða greiði út arð.
    Skattstjóri skal yfirfara skilagreinar og gera á þeim leiðréttingar ef þörf krefur.
    Ef aðili framvísar ekki fullnægjandi skilagrein innan tilskilinna tímamarka skal skattstjóri áætla skilaskylda fjárhæð hans.
    Skattstjóri skal tilkynna aðila um áætlun eða leiðréttingu skv. 2. og 3. mgr.
    Nú verður greiðslubrestur vegna kröfu, en skatti hefur þó verið skilað af vöxtum samkvæmt kröfunni, og er þá skilaskyldum aðila heimilt að senda til innheimtumanns leiðrétta skilagrein fyrir viðkomandi tímabil.
    Þeir aðilar, sem staðgreiðsla er ekki dregin af, skulu gera grein fyrir vaxtatekjum og greiða tekjuskatt af þeim að tekjuári liðnu í samræmi við ákvæði X. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Bókhald.


10. gr.

    Skilaskyldur aðili skv. 3. gr. skal haga bókhaldi sínu þannig að skattyfirvöld geti með auðveldum hætti staðreynt skil hans.
    Fjármálaráðherra hefur heimild til að setja reglur um sérstakt bókhald skilaskyldra aðila.

Skrá um skilaskylda aðila.


11. gr.

    Ríkisskattstjóri skal halda sérstaka skrá um skilaskylda aðila samkvæmt lögum þessum.
    Aðili skv. 3. gr. skal innan átta daga frá því að hann tekur til starfa tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína sem þá færir viðkomandi í skrána. Ef aðili hættir starfsemi skal hann innan átta daga senda tilkynningu þar að lútandi til ríkisskattstjóra sem tekur viðkomandi út af skránni. Aðili, sem fellur undir 1. mgr. 3. gr., getur sótt til ríkisskattstjóra um að verða ekki færður á skrá um skilaskylda aðila, enda hafi hann ekki með höndum innheimtu á eða milligöngu með peningalegar eignir annarra.
    Vanræki aðili tilkynningarskyldu sína skv. 2. mgr. skal ríkisskattstjóri úrskurða hann sem skilaskyldan aðila og tilkynna honum um það.
    Tilkynningar samkvæmt þessari grein skulu vera á þar til gerðu eyðublaði sem ríkisskattstjóri lætur gera. Ríkisskattstjóri ákveður hvaða upplýsingar skuli gefa á þessu eyðublaði.

Ábyrgð.


12. gr.

    Skilaskyldir aðilar skv. 3. gr. og skattskyldir aðilar skv. 2. gr. bera óskipta ábyrgð á þeim skatti sem dreginn er af fjármagnstekjum samkvæmt lögum þessum. Skattskyldur aðili ber þó ekki ábyrgð á þeim skatti sem hann sannar að skilaskyldur aðili hafi dregið af fjármagnstekjum hans.
    Aðili, sem er skilaskyldur vegna milligöngu um viðskipti, er ekki ábyrgur fyrir greiðslu skatts af fjármagnstekjum umfram þá fjárhæð sem hann raunverulega fékk í hendur.

13. gr.

    Rísi ágreiningur um staðgreiðslu samkvæmt lögum þessum milli skilaskylds og skattskylds aðila getur skattskyldur eða eftir atvikum skilaskyldur aðili kært staðgreiðsluna til skattstjóra innan 30 daga frá því að staðgreiðsla átti sér stað.
    Skattstjóri getur krafist af aðilum allra þeirra upplýsinga sem hann telur þörf á til að fjalla efnislega um málið og kveða upp úrskurð um það. Skattstjóri getur jafnframt krafið þriðja mann um upplýsingar hér að lútandi ef skattstjóri telur þörf á til að upplýsa málsatvik.
    Úrskurð eða ákvörðun skattstjóra má kæra til yfirskattanefndar innan 30 daga frá og með næsta degi eftir póstlagningu tilkynningar eða úrskurðar skattstjóra.

Ríkisskattstjóri.


14. gr.

    Ríkisskattstjóri getur af sjálfsdáðum kannað öll atriði er varða skilaskyldu eða staðgreiðslu samkvæmt lögum þessum og breytt ákvörðun skattstjóra ef ástæða er til, svo og kannað sérhver önnur atriði er varða framkvæmd laga þessara. Getur hann í því skyni krafist allra upplýsinga og gagna sem hann telur þörf á að fá frá skattstjórum, innheimtumönnum ríkissjóðs, gjaldheimtum, bönkum, sparisjóðum, fjármálastofnunum eða öðrum aðilum um viðkomandi viðskipti.

Viðurlög.


15. gr.

    Séu greiðslur samkvæmt lögum þessum eigi inntar af hendi á tilskildum tíma skal skattstjóri gera skilaskyldum aðila að sæta álagi til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Sama gildir ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og skattur því verið áætlaður, sbr. 3. mgr. 9. gr., nema skilaskyldur aðili hafi greitt fyrir eindaga fjárhæð er til áætlunarinnar svarar.
    Álag á vanskilafé skv. 1. mgr. skal vera sem hér segir:
    Einn hundraðshluti af fjárhæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en tíu hundraðshlutar.
    Álag til viðbótar af fjárhæð vanskilafjár fyrir hvern byrjaðan mánuð, talið frá og með 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga, hið sama og dráttarvextir samkvæmt vaxtalögum, nr. 25/1987.
    Við útreikning á álagi á áætlaða greiðsluskylda fjárhæð telst eindagi vera sá sami og eindagi greiðslu þess árs sem áætlað er fyrir. Sama gildir um álag á allar vangoldnar greiðslur fyrri ára.
    Sendi skilaskyldur aðili fullnægjandi skilagrein innan 15 daga frá og með dagsetningu tilkynningar skattstjóra skv. 2. mgr. 9. gr. skal hann greiða fjárhæð skilafjár samkvæmt skilagreinum ásamt álagi, sbr. 2. mgr. Skattstjóri má breyta fyrri áætlun eftir lok þessara tímamarka ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Ef bókhaldi er ekki hagað í samræmi við ákvæði 10. gr. má áætla skilaskyldum aðila skilaskylda fjárhæð.
    Komi í ljós að skilaskyldum aðila, sem greiða átti skilafé, hafi ekki verið áætluð skilaskyld fjárhæð eða áætlun verið lægri en það skilafé sem honum bar að greiða skal hann greiða hið skilaskylda skilafé auk álags skv. 2. mgr.
    Fella má niður álag skv. 2. mgr. ef skilaskyldur aðili færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur skattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Innan 30 daga frá og með næsta degi eftir póstlagningu úrskurðar skattstjóra er heimilt að áfrýja mati hans til yfirskattanefndar sem kveður upp endanlegan úrskurð.
    Sé skattur samkvæmt lögum þessum vanreiknaður má gera skilaskyldum aðila að greiða vanskilafé sex ár aftur í tímann, talið frá byrjun þess árs þegar endurreikningur fer fram. Fari fram rannsókn á skilum skilaskylds aðila nær heimild til endurreiknings til sex ára aftur í tímann, talið frá byrjun þess árs þegar rannsókn hófst.

16. gr.

    Vanskilafé, álag og sektir samkvæmt lögum þessum skal innheimt af innheimtumanni ríkissjóðs í því umdæmi þar sem skuldari á lögheimili eða hefur starfsstöð.
    Vanskilafé, álag og sektir njóta fjárnámsréttar í eignum skuldara.
    Innheimtumaður ríkissjóðs skal senda skilagrein til skattstjóra yfir það fé er hann hefur móttekið samkvæmt ákvæðum þessara laga. Innheimtu vanskilafé og álagi skal haldið aðgreindu á sérstökum reikningi þar til skilagrein berst frá skilaskyldum aðila.

Refsingar.


17. gr.

    Ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, skulu gilda um upplýsingar og eftirlit, viðurlög og málsmeðferð aðlútandi staðgreiðslu samkvæmt lögum þessum. Skulu ákvæði þeirra laga m.a. taka til dráttarvaxta, áætlunar skilaskyldrar fjárhæðar og innheimtu vanskilafjár, þar með talið um aðför og stöðvun atvinnurekstrar vegna vanskilanna og fyrningu gjaldkröfu. Einnig skulu ákvæði sömu laga gilda um opinbera rannsókn og refsingar vegna brota á lögum þessum, þar með talið um úrskurðarvald yfirskattanefndar um sektir, sbr. lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

Reglugerðarheimild.


18. gr.

    Fjármálaráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

Gildistaka.


19. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1997.

20. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Aðilar, sem skilaskyldir eru skv. 3. gr., skulu strax við gildistöku laga þessara og eigi síðar en 31. desember 1996 senda ríkisskattstjóra tilkynningu um starfsemi sína sem þá skráir viðkomandi á skrá um skilaskylda aðila. Aðili, sem fellur undir 3. gr., getur farið fram á undanþágu frá færslu í skrá um skilaskylda aðila, enda hafi viðkomandi ekki milligöngu um innheimtu, fjárvörslu eða aðra sýslan með peningalegar eignir annarra.
    Vanræki aðili tilkynningarskyldu sína skv. 1. mgr. skal ríkisskattstjóri úrskurða hann sem skilaskyldan aðila og tilkynna honum það.
    Tilkynningar samkvæmt þessu ákvæði skulu vera á þar til gerðu eyðublaði sem ríkisskattstjóri lætur gera. Ríkisskattstjóri ákveður hvaða upplýsingar skuli gefa á þessu eyðublaði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við frumvarp um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en þar er kveðið á um samræmda skattlagningu fjármagnstekna. Í þessu frumvarpi er kveðið á um þær reglur sem gilda eiga um staðgreiðsluskil skatts á fjármagnstekjur. Reglurnar taka til þess skatts sem reiknast á nafnvexti (að meðtöldum verðbótum) í innlánsviðskiptum bankastofnana og verðbréfa- og kröfuumsýslu þeirra og annarra fjármálastofnana. Einnig er kveðið á um staðgreiðslu skatts af arði af hlutabréfum. Utan staðgreiðsluskyldu fellur gengishagnaður, erlend viðskipti og viðskipti milli einstaklinga.
    Staðgreiðslan nær bæði til vaxta utan rekstrar og þeirra vaxta sem myndast í rekstri. Í síðarnefnda tilvikinu er litið á hana sem bráðabirgðagreiðslu upp í skatt sem endurgreiðist í uppgjöri ef hún er umfram endanlega álagðan skatt. Miðar þetta fyrirkomulag að því að einfalda sem allra mest alla framkvæmd og gera hana á allan hátt sem viðurhlutaminnsta og ódýrasta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin afmarkar gildissvið staðgreiðslunnar. Ekki þykir fært að krefjast staðgreiðslu af öðrum fjármagnstekjum en vöxtum og arði. Húsaleigutekjur og söluhagnaður falli því utan staðgreiðslu.
    Erfitt getur verið á staðgreiðsuárinu að greina milli vaxta og arðs sem myndast í rekstri og slíkra tekna sem til falla utan rekstrar. Tekur því staðgreiðsla til allra en í þeim tilvikum að tekjurnar hafi myndast í atvinnurekstri verður litið á staðgreiðsluna sem bráðabirgðagreiðslu sem síðar kemur til frádráttar álögðum gjöldum.
    Framtalsskylda heldur sér á vaxta- og arðstekjum einnig í þeim tilvikum að staðgreiðslan teljist lokagreiðsla skatts.

Um 2. gr.


    Skattskylda að því er fjármagnstekjuskatt varðar nær til fleiri aðila en skattskyldir eru almennt til tekjuskatts og eignarskatts. Ákvæðið hefur að geyma reglur um sérstök skattskil og skilagreinar þeirra sem hin útvíkkaða skattskylda tekur til. Í 2. mgr. eru taldar upp þær fjármálastofnanir sem eðlilegt er talið að standi utan skattlagningar.

Um 3. gr.


    Greinin tilgreinir þá aðila sem skilaskyldan hvílir á.

Um 4. gr.


    Skilgreining á vöxtum og arði er í greininni með sama hætti og í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Utan staðgreiðsluskyldu er gengishagnaður. Skattur af slíkum vaxtatekjum verður lagður á eftir á sem hluti þinggjaldaálagningar og greiðist á tímabilinu ágúst – desember árið eftir tekjuárið. Á þannig ákvarðaðan fjármagnstekjuskatt færist síðan álag skv. 1. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Um 5. gr.


    Hér er nánari útfærsla á þeim reglum sem gilda um afdrátt staðgreiðslu. Reiknireglur um álag, sbr. 4. tölul. hafa það að markmiði að jafna stöðu kúlubréfa og annarra innlánsforma.
    Staðgreiðsluskatti af arði skal skilað á sama gjalddaga og af vöxtum þ.e.15. janúar næsta árs á eftir því þegar hann fellur til. En afdráttur skattsins fer fram þegar hann er greiddur eða úthlutað til hluthafa.

Um 6. gr.


    Hér er sett fram sú mikilvæga regla að kvittanir og yfirlit um afdregna staðgreiðslu og staðgreiðslustofn verði gefnar út og afhentar rétthöfum vaxta og arðs.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Fyrirkomulag skilagreina verður með svipuðu sniði og nú tíðkast við almenna staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds og kveður greinin á um það. Sérstakt ákvæði er í lokamálsgrein greinarinnar um meðferð skilagreina þegar krafa, sem vextir reiknast af, fæst ekki greidd.

Um 10. gr.


    Þeir aðilar, sem greiða vexti og arð og halda eftir staðgreiðslu af slíkum greiðslum, þurfa eðlilega að halda utan um slíkt með markvissum hætti. Greinin gerir ráð fyrir sérstöku bókhaldi í þessu skyni.

Um 11. gr.


    Í greininni eru ákvæði um tilkynningar og skráningu skilaskyldra aðila. Hér er stefnt að sama fyrirkomulagi og í almennum staðgreiðsluskilum.

Um 12. gr.


    Ábyrgð á staðgreiðsluskilum er óskipt milli greiðenda vaxta og arðs og þeirra er slíkar tekjur fá. Ákvæði þetta hefur m.a. þýðingu þegar greiðandi vaxta eða arðs sinnir ekki staðgreiðsluskyldu sinni en þá geta skattyfirvöld gengið að hvorum aðila sem er, greiðanda eða viðtakanda teknanna. Ábyrgð viðtakanda teknanna fellur þó niður ef hann sýnir fram á að skilaskyldur aðili hafi dregið af fjármagnstekjum hans.

Um 13. gr.


    Eðlilegt þykir að kveða skýrt á um úrskurðun í ágreiningsmálum ef upp koma í tengslum við staðgreiðsluna. Fara slík mál í sama farveg og almenn skattamál, þ.e. unnt er að kæra til skattstjóra og eftir atvikum til yfirskattanefndar.

Um 14. gr.


    Hlutverk ríkisskattstjóra er að hafa umsjón með skilum á svipaðan hátt og hann hefur í sambandi við staðgreiðslu opinberra gjalda nú. Þessu ákvæði er ekki ætlað að breyta núgildandi reglum um aðgang skattyfirvalda að upplýsingum í bankastofnunum.

Um 15.–17. gr.


    Viðurlagsákvörðun og endurákvörðun skilaskyldrar greiðslu fer eftir sambærilegum reglum og nú gilda við staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Sama á við um meðferð vanskilafjár, álags og sekta.
    Ákvörðun um refsingar fer alfarið eftir núgildandi lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Um 18. og 19. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 20. gr.


    Ákvæðið fjallar um skráningu skilaskyldra aðila við upphaf staðgreiðslu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um fjármagnstekjuskatt.


    Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Bæði frumvörpin varða sama málið, þ.e. skattlagningu og innheimtu skatts á fjármagnstekjur. Um mat á kostnaði vísast til kostnaðarumsagnar sem fylgir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.